Vikið verði frá aldursskilyrðum um atvinnuleysibætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur beint þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að hún víki frá aldursskilyrðum þegar sótt er um atvinnuleysibætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.Í lögum um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þau skilyrði að launamaður sé orðinn 18 ára og yngri en 70 ára til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Þátttakendur á vinnumarkaði sem orðnir eru 70 ára eða eldri hafa ekki getað nýtt sér úrræði stjórnvalda um hlutabætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli þar sem þeir uppfylli ekki framangreint skilyrði laganna.Úrræðinu um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli er ætlað að aðstoða fyrirtæki tímabundið við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt vegna þess óvissuástands sem ríkir á vinnumarkaði í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Því þykir ekki ástæða til að gera greinarmun eftir aldri á þeim þátttakendum á vinnumarkaði sem úrræðið getur nýst.Í lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall) er kveðið á um að heimilt sé að greiða bætur samkvæmt ákvæðinu þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna enda séu skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Jafnframt er kveðið á um að önnur ákvæði laganna gildi um greiðslu bóta samkvæmt ákvæðinu eftir því sem við geti átt.Þá beinir ráðherra einnig þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að stofnunin kynni breytta stjórnsýsluframkvæmd með fullnægjandi hætti og beini því jafnframt til umsækjenda sem vegna aldurs kunna að hafa fengið synjun um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli að sækja um slíkar bætur að nýju.Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Markmiðið með frumvarpinu um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli er einfalt, að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsamband við starfsmenn sína eins og frekast er unnt. Það eru mikil verðmæti fólgin í því fyrir allt samfélagið að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda á meðan faraldurinn gengur yfir. Því hef ég beint þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að hún víki frá aldursskilyrðum þegar sótt er um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.“

Previous
Previous

Nú þarf að huga að afa og ömmu

Next
Next

Hvað er heilsuvera.is? Er þetta eitthvað fyrir eldri borgara?