Almenna frítekjumarkið verði 100 þúsund krónur
Ályktun kjaranefndar LEB og FEB-R
Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni
Á fundi kjaranefndar LEB þann 4. nóvember 2019 er lögð áhersla á að hækka almenna frítekjumarkið í 50 þúsund krónur sem tæki gildi þann 1. janúar 2020.
Ennfremur leggur kjaranefndin áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki um 25 þúsund krónur 1. janúar 2021 og aftur 2022 um það sama að lágmarki. Þannig verður almenna frítekjumarkið 100 þúsund krónur þann 1. janúar 2022.
Í kjarnefnd LEB og FEB-R sitja: Sigurður Jónsson formaður, Haukur Halldórsson, Stefanía Magnúsdóttir, Ólafur Örn Ingólfsson og Sigurbjörg Gísladóttir.
Uppfært 26. nóvember 2019: Stjórn LEB samþykkti samhljóða ályktun á fundi sínum í dag, 26.11.2019.
Sigurður Jónsson formaður kjaranefndarinnar skrifar eftirfarandi pistill af tilefni ályktunarinnar:
Þeir sem minnst hafa sitja eftir

Um næstu áramót hækka greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins um 3,5% til þeirra eldri borgara sem fá greiðslur þaðan. Nú liggur það fyrir að meðaltal nýgerðra kjarasamninga nemur 6,5%. Sem sagt eldri borgarar fá 3% minna heldur en launþegar almennt. Ennfremur liggur fyrir að eftir er að semja við opinbera starfsmenn og þeir fá varla minna en á almenna markaðnum.Sama átti sér stað um síðustu áramót og áramótin þar á undan. Þessi munur er að sigla í 10%, þ.e. hvað eldri borgarar fá minna í sinn vasa heldur en launaþróun hefur verið á síðustu árum. Það er því mjög furðulegt svo ekki sé meira sagt hvernig ráðamönnum getur dottið í hug að fullyrða að eldri borgarar hafi notið mestra kjarabóta allra í landinu. Um 9.000 eldri borgarar eru á mjög slæmum kjörum og þeirra staða versnar um hver áramót eftir að stjórnvöld ákveða að greiðslur frá TR eigi að vera lægri heldur en launaþróun er í landinu. Þessi hópur eldri borgara hefur fyrst og fremst sínar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins. Það gengur ekki að þeir verst settu haldi ekki einu sinni í við hækkun lægstu launa á vinnumarkaði. Þessu verður að breyta.
Flokkur fólksins barðist fyrir hátekjuhópinn
Flokkur fólksins segist vera eina stjórnmálaaflið í landinu sem berst fyrir því að útrýma fátækt. Flokkur fólksins stóð fyrir málaferlum gegn ríkinu þar sem í ljós kom að við setningu laga urðu mistök hvað varðar greiðslu frá TR í tvo mánuði ársins 2017. Það láðist að hafa skerðingarákvæði inni í lögunum. Þetta notaði forysta Flokks fólksins til að fara í málaferli og sagði þetta baráttu fyrir fátæka fólkið. Flokkur fólksins vann málið og Tryggingastofnun hefur nú greitt leiðréttingu til eldri borgara. Hver var niðurstaðan? Þeir sem höfðu sáralitlar tekjur úr lífeyrissjóði fengu frá 20 til 50 þúsund króna leiðréttingu. Þeir sem voru á háum launum og fá því háar lífeyrissjóðsgreiðslur mörg hundruð þúsund í sinn vasa. Greiðsla til hálaunafólksins var allt upp í 800 þúsund krónur. TR greiddi út 6 milljarða og meira en helmingur fór til þeirra sem hæstu hafa greiðslurnar. Fátækasta fólkið fékk ekki neitt.Nú má skilja það á málflutningi Fólks flokksins að þannig vilji þau hafa þetta. Allar skerðingar í burtu hvað varðar greiðslur frá TR. Þetta þýðir að þeir hæst launuðu úr lífeyrissjóðum fá þá 150 til 400 þúsund á mánuði á meðan þeir sem lægstu greiðslurnar fá úr lífeyrissjóðum fá nánast ekkert. Er þetta virkilega það réttlæti sem Flokkur fólksins vill? Er þetta virkilega leiðin til að útrýma fátækt. Þessi aðferð kostar ríkið 36 milljarða á ári. Nei, það er til sanngjarnari leið.
Það er til leið sem bætir kjör þeirra verst settu
Nú er það þannig að eldri borgari má vinna sér inn 100 þúsund krónur á mánuði án þess að skerða greiðslur frá TR. Aðrar tekjur, s.s. úr lífeyrissjóði, mega ekki vera hærri en 25 þúsund krónur á mánuði. Ef þær eru hærri skerðast greiðslur frá TR.Þessu þarf að breyta. Það þarf að stefna að því að almenna frítekjumarkið verði 100 þúsund krónur á mánuði eins og atvinnutekjur. Væri þetta gert myndi hagur þeirra sem minnst hafa úr lífeyrissjóði batna verulega. Þá héldu menn allt að 100 þúsund króna greiðslu úr lífeyrissjóði án þess að greiðslur frá TR myndu skerðast. Þetta er leiðin til að bæta kjör þeirra verst settu. Verði almenna frítekjumarkið hækkað í 100 þúsund krónur kostar það ríkissjóð rúma 12 milljarða á ári.
Tillaga Kjaranefndar Landssambands eldri borgara er að þetta verði tekið í þremur skrefum. Um næstu áramót hækki almenna frítekjumarkið í 50 þúsund krónur, síðan í 75 þúsund krónur á mánuði og loks í 100 þúsund krónur. Kostar ríkið um 4 milljarða í hækkun árlega. Með þessu væri ákeðið að bæta hag þeirra sem verstu kjörin hafa, en þeir sem hafa um 600 þúsund á mánuði og hærra frá lífeyrissjóðum fá ekki neinar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta er réttlæti meini menn eitthvað með að bæta eigi kjör þeirra verst settu.
Það hlýtur að vera hægt að ná sátt á Alþingi um svona tillögu.