Ályktun um félags- og velferðarmál samþykkt á landsfundi LEB 2015
Landsfundur Landssambands eldri borgara haldinn 5-6 maí 2015 fagnar því að komin er fram þingsályktun um Umboðsmann aldraðra og skorar á Alþingi að samþykkja tillöguna og koma á fót embætti umboðsmanns aldraðra. Einnig að réttargæslumenn fyrir aldraða verði hluti af félagsþjónustu sveitarfélaga. Knýjandi nauðsyn er að til sé aðili sem aldrað fólk geti leitað til með spurningar varðandi ýmis réttindamál og mál sem koma upp í samskiptum við þjónustuaðila.Landsfundurinn beinir því til stjórnvalda að Öldungaráð í hverju sveitarfélagi eða í samvinnu sveitarfélaga verði lögfest sem réttbær tillögu- og umsagnaraðili um málefni eldri borgara og skorar á aðildarfélög LEB að beita sér fyrir stofnun öldungaráða í sínu sveitarfélagi þar sem þau starfa ekki nú þegar. Öldungaráðin kynni sér m.a. þjónustu við eldra fólk á heimilum, í þjónustuíbúðum og á öldrunarheimilum og leggi fram tillögur þar sem úrbóta er þörf. Bent er á að nú þegar eru öldungaráð starfandi í Reykjavík, Hafnarfirði, Suðurnesjum, Hveragerði, Borgarbyggð, Ölfusi og jafnvel fleiri sveitarfélögum.Landsfundurinn vill að aldraðir sem komnir eru með gilt Færni-og heilsumat eigi völ á að fá notendastýrða persónulega aðstoð í heimahúsum og geti valið um að vera heima eða að fara á hjúkrunarheimili. Áfram verði unnið að því að færa málefni aldraðra til sveitarfélaga að því tilskyldu að nægt fjármagn fylgi. Landsfundurinn vill að starfsmenn í félagslegri heimaþjónustu aldraðra framvísi sakavottorði og tali og skilji íslensku. Einnig eiga þeir að hafa lokið samræmdri viðurkenndri grunnmenntun. Námið gæti verið fjarnám með stuttum námskeiðum á vegum hvers sveitarfélags. Landsfundurinn gerir þá kröfu að tekið sé mið af manneldismarkmiðum Íslendinga í fæðuvali á hjúkrunarheimilum, þjónustumiðstöðvum og heimsendum máltíðum.Ofbeldi gagnvart öldruðum hefur lítið verið rannsakað hér á landi, en leiða má líkum að því að það eigi sér stað svipað og hjá öðrum þjóðum þar sem það hefur verið rannsakað nægilega. Landsfundurinn telur nauðsynlegt að rannsaka ofbeldi gegn öldruðum. Aldursfordómar eru víða og geta leitt til ofbeldis. Landsfundurinn beinir því til landlæknisembættisins að hafa forgöngu um slíka rannsókn.Landsfundurinn fagnar áframhaldandi starfi Velferðarvaktarinnar og góðrar samvinnu sem þar hefur tekist með ýmsum ólíkum félagasamtökum um að styrkja velferð. Flestar af tillögum Velferðarvaktarinnar snerta hagsmuni eldri borgara sem mikilvægt er að hrinda í framkvæmd svo sem að lágmarksviðmið til framfærslu verði skilgreind, fjárhagsleg staða leigjenda, búseturéttarhafa og eigenda íbúða sé jöfnuð, grunnþjónusta sé gjaldfrjáls.