Bjartur lífsstíll fyrir alla

  

Verkefnastjórar heilsueflingar eldra fólks, þær Ásgerður Guðmundsdóttir og Margrét Regína Grétarsdóttir, hafa unnið hörðum höndum frá því í ársbyrjun að skoða framboð á hreyfingu fyrir eldra fólk um allt land. Þá hafa ÍSÍ og Landssamband eldri borgara (LEB) sett á laggirnar hreyfiúrræði fyrir eldra fólk, sem hefur fengið nafnið „Bjartur lífsstíll”.

Markmiðið er að innleiða heilsueflingu til framtíðar og auka heilsulæsi hjá fólki, 60 ára og eldra, á landsvísu. Fjölmörg góð hreyfiúrræði eru nú þegar í boði víða um landið og verður lögð áhersla á að efla núverandi hreyfiúrræði, auka vitundarvakningu eldra fólks og aðstoða sveitarfélög þar sem þörf er á úrbótum.

Síðastliðnar vikur hafa Ásgerður og Margrét prufukeyrt hreyfiúrræðið hjá Knattspyrnufélaginu Þrótti í Reykjavík þar sem 20 manns á aldursbilinu 60-90 ára stunduðu markvissa hreyfingu tvisvar í viku. Samhliða þróun hreyfiúrræðisins er verið að þróa hagnýtan upplýsingabanka fyrir verðandi þjálfara sem munu taka að sér verkefnið í framtíðinni um land allt. Þá gefst þjálfara kostur á aðgangi að fjölbreyttum æfingabanka, tímaseðlum, fræðslu í skyndihjálp og fleira.

Til þess að tryggja að „Bjartur lífsstíll” verði langlíft hreyfiúrræði fyrir eldra fólk á landsvísu eru verkefnastjórar að hitta fjöldan allan af aðilum sem koma að heilsumálefnum eldri borgara. Þetta eru aðilar frá sveitarfélögum, ráðuneytum, velferðarsviði, embætti landlæknis, heilsugæslunni, íþróttahéröðum og -félögum, félögum eldri borgara og Rauða krossinum, svo dæmi séu  nefnd.

Framtíðaráform eru að í öllum sveitarfélögum á landinu verði í boði hreyfiúrræði fyrir eldri borgara. Fjárfesting í forvörn skilar sér margfalt.

Kynningarmyndband um verkefnið.

Facebook síða verkefnisins.

Previous
Previous

Fjölbreytt LEB blað 2022 komið út

Next
Next

Upptaka frá Landsfundi LEB 2022