Níu þúsund fátækir eldri borgarar

Borgarafundur um málefni eldri borgara var haldinn í Kastljósi á RÚV þriðjudaginn 1. október sl.

Þar var stefnt saman ýmsu fólki sem hefur látið sig þetta málefni varða á einn eða annan hátt. Stjórnendur umræðunnar voru fréttamennirnir Einar Þorsteinsson og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir

Hér koma nokkur brot úr umræðunni.

HÆGT ER AÐ HORFA Á ÞÁTTINN ALLAN MEÐ AÐ SMELLA Á TENGIL NEÐST Á SÍÐUNNI.

„Aldursfordómar grassera í þessu samfélagi“

Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona og einn af stofnendum Gráa hersins segir að aldursfordómar grasseri í samfélaginu. Þetta kom fram á borgarafundi um málefni eldri borgara í beinni útsendingu úr myndveri RÚV. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að almannatryggingakerfið eigi að vera öryggisnet en ekki réttindakerfi. Viðar Eggertsson, leikstjóri mótmælir því.

„Aldursfordómar eru grasserandi. Það er ótrúlegt að horfa á þetta. Til dæmis þegar eldri stjórnmálamenn tjá sig um eitthvað mál - þá fá þeir að heyra að þeirra tími sé liðinn. Fólk hefur tjáningarfrelsi svo lengi sem það lifir,“ segir Erna Indriðadóttir stofnandi miðilsins Lifðu núna. Viðar Eggertsson tekur undir með henni. „Það er ótrúlega mikið að fólki sem upplifir aldursfordóma í samfélaginu.“

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar var ásamt félagsmálaráðherra á fundinum. Óli Björn beinir sjónum sínum að almannatryggingakerfinu. „Margir telja almannatryggingakerfið réttindakerfi, það er misskilningur. Almannatryggingakerfið er tryggingakerfi og á að vera öryggisnet. Það held ég að sé eina leiðin. Hin leiðin mun leiða okkur í efnahagslegar ógöngur,“ segir Óli Björn.

Viðar mótmælir þessu. „Almannatryggingakerfið var upphaflega hugsað sem lífeyrir fólks sem var búið að standa sína plikt í gegnum ævina - borga sína skatta og skyldur í 40-50 ár og fær þetta kerfi að lokum. Lífeyrissjóðirnir voru hugsaðir sem eins konar skyldusparnaður til viðbótar við almannatryggingar,“ segir Viðar jafnframt.

„Stefna okkar er kolröng“

Doktor í heilsueflingu aldraðra segir að fara þurfi í átak í allsherjar heilsueflingu eldra fólks hér á landi. Félagsmálaráðherra segir það koma til greina. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis segir fjármunum sóað með því að leggja ekki meiri áherslu á stefnu í lýðheilsumálum.

Janus Guðlaugsson doktor í heilsueflingu aldraðra leggur til að meiri kraftur verði lagður í allsherjar heilsueflingu eldra fólks á borgarafundi í beinni útsendingu á RÚV í kvöld. „Það þarf að ýta inn heilsutengdum forvörnum að krafti. Við þurfum að setja af stað sjóð sem er til að efla heilsutengdar forvarnir þá í samvinnu við sveitarfélögin. Þannig að þau geti sótt í þennan sjóð,“ segir Janus.

Efla þarf heilsutengdar forvarnir um allt land að mati Janusar. „Eini möguleikinn að mínu viti til að bregðast við þessum lífsstílssjúkdómi - bæta mataræðið og vinna með þetta fólk í markvissri þjálfun,“ segir hann.

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis tekur undir það. „Það sem liggur í orðum Janusar er að stefna okkar er kolröng. Við erum að sóa fjármunum í heilbrigðiskerfinu, með því að leggja ekki meiri áherslu á lýðheilsustefnuna,“ segir Óli Björn. „Fjárfesting í lýðheilsu er líklegasta arðbærasta fjárfesting sem þessi þjóð getur farið í.“

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra segir átak í heilsueflingu koma til greina. „Ég vil taka Janus á orðinu. Ég vil sjá átak í þá veruna nákvæmlega eins og hann lýsti hér,“ segir Ásmundur Einar.

Janus segir að 50 milljarðar fari í rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila á ári. „Þetta verða 81 milljarðar eftir 15 ár, ef við gerum ekkert og höldum þessari þróun áfram,“ segir Janus.

Þátttakendur í borgarafundinum eru sammála um að leggja þurfi meiri fjármuni í málaflokkinn.

Níu þúsund fátækir eldri borgarar

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir að níu þúsund eldri borgarar séu í fátækt.

Leggja þurfi áherslu á þá sem séu í sárri fátækt. „Það eru neðstu þrjár tíundirnar sem við höfum mestar áhyggjur af.

Stór hluti þeirra sem eru í sárri fátækt eru fyrrverandi öryrkjar, eiga ekki bakland eða sterkan lífeyrissjóð eða þeir eru leigjendur,“ segir Þórunn.

Vill ekki beisla fullfrískt fólk heima

„Ef fólk vill vera lengur á vinnumarkaði, af hverju ættum við þá að banna það?“ segir félagsmálaráðherra um starfslokaaldursregluna.

Þátttakendum borgarafundarins var tíðrætt um 70 ára starfslokareglu eldri borgara.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra segist vilja skoða skerðingar á kjörum eldri borgara, frítekjumarkið og 70 ára regluna. Vilt þú afnema hana? „Ég held að það þurfi að skoða. Samfélagið okkar þarf á þessu fólki að halda. Ef að fólk er fullfrískt og vill taka þátt í vinnumarkaði og vinnumarkaðurinn þarf á þessu fólki að halda - af hverju ættum við þá að vilja beisla það heima fyrir?“ spyr Ásmundur Einar og bendir á að það sé mikilvægt að hafa vinnumarkaðinn fjölbreyttan.

Guðrún Ágústsdóttir fyrrverandi formaður öldrunarráðs vill afnema lögin um 70 ára hámarksaldur. „Þau eru tímaskekkja miðað við hvað við heilsu eldri borgara,“ segir hún. „Það á að leyfa fólki að sem vill og getur halda áfram. Ekki endilega í sama starfi.“

Staða kvenna slæm

Mjög stór hópur af fátækasta hópnum eru konur. „Þær hafa margar hverjar afskaplega lélegan lífeyrissjóð. Það eru göt í þeirra starfsaldri. Þær hafa verið að hætta út af ýmsu heima fyrir - börnum, veikindum og foreldrum og öðru slíku - þeirra staða er mjög slæm,“ segir Guðrún.

Ásmundur Einar segir að taka þurfi utan um þá sem hafa verstu kjörin. „Það er á þingmálaskrá frumvarp sem innleiðir bótaflokk gagnvart þessum hópi. Við erum að leggja lokahönd á frumvarpið,“ segir Ásmundur Einar. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara benti á það fyrr á fundinum að níu þúsund eldri borgarar væru í fátækt.

Guðrún telur ekki hægt að tengja saman öryrkja og aldraða. Hún líkir umræðunni um að öldruðum sé að fjölga við náttúruvá. „Öldruðum fjölgar og jöklarnir bráðna. Það er skrítið að umræðan sé þannig að öryrkjar og aldraðir séu til vandræða og kosta peninga,“ segir Guðrún.

HÉR ER ER HÆGT AÐ HORFA Á BORGARAFUNDINN - SMELLTU!

Previous
Previous

Sparta býður 60+ í frían prufutíma

Next
Next

10. október: Málþingið Er gott að eldast á Norðurlandi / Akureyri?