Bréf til formanna flokka á þingi

Landssamband eldri borgara hefur sent öllum formönnum flokka sem náðu inn á þing í nýafstöðnum kosningum, bréf til að hvetja til samráðs og samstarfs.

Erindi bréfsins er svohljóðandi:

Landssamband eldri borgara (LEB) eru samtök 57 félaga eldri borgara í landinu með um 37 þúsund félagsmenn. Samtökin gegna æ þýðingarmeira hlutverki í starfi félaganna og eru helsti tengiliður þeirra við stjórnvöld, sveitarstjórnir, heilbrigðisþjónustu og félagsmálaþjónustu um land allt.

Við hjá LEB viljum þakka ykkar þátttöku í umræðu um málefni félagsmanna innan okkar vébanda m.a. með því að taka þátt í kosningafundi okkar þann 21.nóvember sl. Við viljum fylgja eftir þessum góða fundi og ítreka mikilvægi þeirra málefna sem brenna hvað mest á okkar fólki og voru ofarlega í umræðunni í kosningabaráttunni.

Á fundum sem sambandið hefur haldið um allt land hafa kjaramál eldri borgara  verið efst á baugi og ber hæst í umræðunni  almenna frítekjumarkið sem hefur ekkert hreyfst í sjö ár fyrr  en um næstu áramót, en það teljum við aðeins lítið fyrsta skref í leiðréttingu til handa eftirlaunaþegum.

Gliðnun á milli grunnlífeyris og lægsta taxta SGS verður um næstu áramót kr. 102.214 sem er hækkun um kr. 55.000 á síðustu sjö árum. Þetta verður að laga enda ekki verjandi að þeir sem treysta á greiðslur frá TR þurfi að sætta sig við lægri greiðslur en lágmarkstaxta.

Annað mikið óréttlæti sem þarf að laga er að ekki skuli vera frítekjumark vaxtatekna hjá eldri borgurum þessa lands, líkt og öðrum skattgreiðendum. Það sætir furðu að verðbætur, sem eru jú eingöngu til að uppfæra verðgildi og vextir skuli skerða lífeyrinn strax frá fyrstu krónu. Þetta hefur valdið mikilli úlfúð, sérstaklega þegar vaxtastigið hækkar óvenju mikið eins og það hefur gert síðustu misseri. Þá hækka vaxtatekjur með tilheyrandi skerðingum og ellilífeyrisþegar fá bakreikning þar sem vaxtatekjur voru umfram áætlun. Okkar krafa er að sett verði á frítekjumark vegna vaxtatekna í samræmi við skattareglur (núna kr. 300.000 á ári).

Við bendum á að okkar félagsmenn, fólk sem er 60 ára og eldra, er sístækkandi hópur í þjóðfélaginu og þar af leiðandi vaxandi þrýstihópur. Við teljum það tímabært að við fáum formlega aðkomu að okkar málefnum og fáum að taka þátt í því starfi sem þarf að fara fram, t.d. við endurskoðun laga um almannatryggingar, sem við teljum afar brýnt mál. Við erum boðin og búin til að veita þeim flokkum lið sem sýna áhuga á því að standa við þau loforð sem gefin voru í aðdraganda kosninga.

Previous
Previous

Er þín tekjuáætlun hjá TR rétt?

Next
Next

Styrkur til góðra verka