Samstarfsaðili U3A Reykjavík til margra ára er UPUA (Universidad Permanente de la Universidad de Alicante), einn af háskólum þriðja æviskeiðsins á Spáni. Samstarfið hófst árið 2014 með BALL verkefninu og síðar með HeiM verkefninu, hvort tveggja evrópsk samstarfsverkefni styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins, en afrakstur beggja verkefna hefur vakið athygli og hlotið viðurkenningu víða um heim. Sjá má umfjöllun um þessi verkefni á vefsíðu U3A Reykjavík um erlent samstarf .Síðastliðið vor kom átta manna hópur eldri nemenda frá UPUA til Íslands sem fengið hafði Erasmus+ hreyfanleikastyrk til fullorðinsfræðslu. Móttökuhópur félaga í U3A Reykjavík tók á móti þessum gestum og skipulagði dagskrá í eina viku fyrir hópinn í samræmi við markmið heimsóknarinnar um að kynnast Íslandi, náttúru landsins, samfélagi og menningu. Skemmst er frá að segja að hópurinn var vel undirbúinn með vel skilgreind námsmarkmið. Óhætt er að segja að þessi vika var afar ánægjuleg upplifun fyrir gestgjafa jafnt sem gesti. Sjá má stutta frásögn af þessari heimsókn hér á vef U3A Reykjavík.Meðal þess sem gestirnir lærðu um íslenskt samfélag var orðtakið „Þetta reddast“ sem óspart var notað í samræðum um hið íslenska samfélag og gangverk þess. Tóku gestirnir þetta til sín með ríkum skilningi og ánægju yfir því að fá innsýn í íslenska þjóðarsál á svo hnitmiðaðan hátt.Alicante hópurinn hefur eftir að heim var komið unnið úr upplifun sinni á Íslandi og því sem þau lærðu um land og þjóð. Við viljum vekja athygli á nýjum vef sem einn gestanna, Guillermo Blanco Labandera, hefur sett upp með það að markmiði að stuðla að jákvæðum samskiptum Íslands og Spánar með skoðanaskiptum, þekkingarmiðlun og ánægjuauka. Og hvað haldið þið að vefurinn heiti. Auðvitað „Þetta reddast“ með slóðina www.zetta-reddast.orgVefurinn er enn í burðarliðnum og að mestu enn á spænsku en verður einnig aðgengilegur á ensku eins og við verður komið. Þetta verkefni er stutt af UPUA og hefur U3A Reykjavík boðist að taka þátt og geta félagar nú þegar skoðað vefinn og tekið þátt í skoðanaskiptum. Ein af félögum U3A Reykjavík, Auður Leifsdóttir, sem tók þátt í móttöku hópsins í fyrravor, hefur þegar tekið virkan þátt í þessum samskiptum fyrir Íslands hönd og mun hún halda erindi í Alicante 4. mars um menntun á Íslandi, „Próxima Actividad: La Educación en España e Islandia: II Parte“ en menntamál eru fyrsti málaflokkurinn sem tekinn er til skoðunar í þessu samstarfi. Auður mun halda erindið á spænsku og verður því streymt, og upptaka gerð aðgengileg á vefnum með enskum undirtexta.Þetta skemmtilega frumkvæði Guillermos er allrar athygli vert og við hvetjum ykkur sem hafið áhuga á samskiptum við Spán, og þá sérstaklega Alicante, til þess að skoða þennan vef og njóta þess sem hann býður uppá.Hans Kr. Guðmundssonn |
|