Jólakveðja LEB og jólahugvekja formanns

Stjórn LEB – Landssambands eldri borgara

sendir landsmönnum öllum hugheilar jólakveðjur

með ósk um árangursríkt nýtt baráttuár fyrir eldri borgara þessa lands!

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara skrifar jólahugvekju:

Jólin mín sem barn

Að líta til baka til bernskunnar er alltaf ljúft. Mín æska var góð. Ég er fædd á Snæfellsnesi í desember 1945 en ári seinna eru foreldrar mínir gift og flutt á mölina. Þau leigðu fyrstu árin okkar á Vegamótastíg 9 hjá dásamlegu fólki sem urðu vinir okkar út lífið. Þetta var lítil íbúð á efri hæð en þar voru tvö herbergi í útleigu en okkar hluti var stofa og svefnherbergi. Kolaeldavél var í sameiginlegu rými og átti annar leigjandinn aðang að henni.Ég man mjög vel eftir þessum húsakynnum. Rúm foreldra minna var Ottoman og voru rúmföt alltaf rúlluð upp og sett í rúmfatakassa til að hafa allt snyrtilegt. Ekki var aðgangur að þvottahúsi en mamma fór með þvott í léreftspoka til vina uppá Skólavörðustíg þar sem var suðupottur en þvegið var á bretti í bala. Þvottadagar voru tímafrekir því að skola og vinda var erfiðisverk. Hengt var á snúrur því ekki var mengunin þá. Þarna bjuggum við til 1951 en þá var íbúðin tilbúin á Miklubraut 82 sem þau höfðu verið að byggja. Þvílík dásemd. Nóg pláss og þvottahús niðri. En þarna var ungt fólk sem vildi ekki skulda. Þess vegna voru 2 herbegi alveg ókláruð og það kom svo smátt og smátt. Þarna var ég komin upp í sveit fannst mér, þar sem nú er Kringlan.Rétt fyrir ofan okkur voru kálgarðar og hægt að leika sér við að flétta blómakransa. Börn voru svo frjáls á þessum árum; flögruðu um allar hlíðarnar og upp í Öskjuhlíð og í Austurbæjarskólann yfir Klambratúnið í öllum veðrum. Leikir barna voru af öllum gerðum og aldrei dauður tími. Mikið var gott að vera barn á þessum árum. Á skíðasleða niður Miklubraut; því er erfitt að trúa en er satt. Þarna fer maður að muna betur eftir jólunum.Allt var í hófi miðað við okkar tíma og mikið heimagert s.s. jólakjóll saumaður upp úr kjól af mömmu eða vinkonu hennar. Það var skömmtun á byrjunarárum foreldra minna í Reykjavík og  beðið í marga klukkutíma eftir efni. Smjörlíki var skammtað og fleiri miðar voru til og afgreitt með þeim. Enginn heimasími en farið niður í bæ í símstöðina að hringja til ömmu í sveitinni. Litlir símaklefar og konurnar á símstöðinni með fullt af snúrum og tökkum að sýsla við að ná sambandi. Þá var mamma kölluð upp og hún  spjallaði við ömmu.Þarna má ætla að öll sveitin hafi hlustað því símar þá voru þannig að fólk gat heyrt samtöl hvert hjá öðru. Hvert heimili hafði sína hringingu t.d. tvær stuttar og ein löng! Þetta kerfi var við líði í sveitum landsins fram yfir 1960. Það man ég frá að vera kaupakona í sveit 1959 og 1960. Þá fekk ég símtöl frá mömmu því nú væri pakki á leiðinni.Þessi dýrlegu bernskuár eru svo góð í minningunni. Jól voru þá allt öðruvísi en í dag. Allt svo miklu minna, skreytingar fáar, jólatré heimagert með vöfðum greinum með kreppappír og örfáar jólakúlur. Sería með bjöllum og svo seinna kom toppur á tréð. Þetta skraut var vanalega geymt til næstu jóla.Í minningunni er lambakjöt í matinn, hryggur eða læri með brúnuðum kartöflum, mjög snemma grænar baunir en ekkert grænmeti komið þarna. Rommbúðingur, þar fylgdi örlítil flaska með bragðefni.  Þeyttur rjómi í skreytingu. Bakaðar voru nokkrar tegundir af smákökum sem voru frábærar. Mamma hafði farið á húsmæðraskólann á Staðarfelli. Svo var líka bökuð vínarterta með rabbabarasultu. Þetta var hátíð í bæ. Þetta breyttist svo árlega og fyrst komu nokkur epli og appelsínur, svo rauðkál, rauðbeður og fleira girnilegt. Mér fannst gaman að aðstoða í eldhúsinu sem krakki.Jólagjafir voru yndislegar s.s. heimagerð dúkka, vasaklútur sem er enn til, bækur og einhver barnaspil. Fallega raðað undir tréð. Engar stórgjafir því það þekktist ekki. Alltaf var þögn á meðan jólin voru hringd inn og hlustað var á jólamessuna í útvarpinu. Stundum var farið í messu. Oft var borðað seint því faðir minn vann vaktavinnu og kom stundum kl. 20.00 heim eða fór fyrir 20.00 á vakt. Þetta var eitthvað sem maður vandist en var oft erfitt meðan maður var yngri.Jól bernskunnar eru dýrmæt og mér finnst í dag að við sem fædd erum fyrir miðja síðustu öld höfum verið mun glaðari með okkar jól og jólagjafir en börn í dag.Greinin birtist fyrst á vefnum LIFÐU NÚNA

Previous
Previous

Ágrip úr sögu LEB í 30 ár: 1989-2019

Next
Next

Landssamband eldri borgara gegnir mikilvægu hlutverki