Landssamband eldri borgara gegnir mikilvægu hlutverki

Formenn aðildarfélaga Landssambands eldri borgara eru sammála um að Landssambandið gegni mikilvægu hlutverki í réttindabaráttu eldra fólks.Rætt var við formenn fjögurra aðildafélaga eldri borgara, þau Valgerði Sigurðardóttur formann Félags eldri borgara í Hafnarfirði,  Hauk Halldórsson formann Félags eldri borgara á Akureyri, Gyðu Vigfúsdóttur formann Félags eldri borgara á Egilsstöðum og Þorstein Sigurðsson formann Félags eldri borgara í Stykkishólmi. Þorsteinn hefur nú látið af störfum sem formaður síns félags.„Landssambandið er styrkur og hvatning félögunum sem starfa um allt land. Sumum félögum verður það alltaf meiri styrkur en öðrum þar sem félögin eru misstór og öflug fyrir. Samskipti við Landssambandið eru mikilvæg fyrir félögin. Með góðu og nánu sambandi, miðlun á efni og upplýsingum til félaga um stöðu mála hverju sinni, hvetur það til frekari meðvitundar um málefnin,umræðu og niðurstöðu” segir Valgerður.„LEB vinnur að hagsmunagæslu félaga sinna á breiðum grundvelli, bæði gagnvart ríki og sveitarfélögum. Þar ber hæst krafa um, annars vegar bætta aðstöðu í hjúkrunar- og dvalarheimilum, ásamt því að nægt framboð verði á húsnæði sem hentar öldruðum. Þá er rétt að benda á að eldri borgarar hafa hvorki verkfallsrétt né samningsrétt um kjör sín. Þess vegna veltur það á miklu að þannig sé haldið á málum að almenningur og ríkisvald telji rétt og skylt að eldri borgarar hafi sambærilegar tekjur og aðrir hópar samfélagsins og enginn þurfi að líða skort á ævikvöldinu,“ segir Haukur.„Landssambandið hefur mikla þýðingu við að yfirfara og fylgjast með og hafa eftirlit með þeim lögum og reglugerðum sem varða eldri borgara og Alþingi setur. Það þarf að fylgja vel eftir öllum málum er varða okkar réttindi og eins að koma því til okkar á mannamáli,“ segir Gyða.Þorsteinn segir að LEB stuðli að sameiningu eldri borgara um land allt. Það verji hagsmuni eldra fólks og fari með málefni eldri borgara gagnvart hinu opinbera svo sem Sjúkratryggingum og TR.Gyða segir að LEB hafi hlutverki að gegna þegar kemur að gerð kynningar og fræðsluefnis  eins og t.d. þættina sem sýndir voru á Hringbraut. „Allt efni sem kemur í sjónvarpi nær mjög vel til okkar aldurshóps.  Blaðið Listin að lifa er einnig mjög gott blað og er lesið upp til agna þegar það berst inn um bréfalúguna.  Ég veit að margir bíða eftir næsta blaði og hafa jafnvel gengið í  félagið til að fá blaðið,“ segir hún.Þorsteinn er ánægður með auglýsingaherferð Gráa hersins. „Þar sést hvað við getum, og mörg okkar erum enn fullfær á almennum vinnumarkaði. Auglýsingarnar eru skemmtileg áminning um að við kunnum ýmislegt þó gömul séum og getum verið fullnýtir þjóðfélags þegnar.“Öll eru þau sammála um að hlutverk LEB verði mikilvægt í framtíðinni þó það kunni að breytast í takt við breytta tíma.„Framtíð Landssambands eldri borgara byggir á nútíðinni þar sem baráttan fyrir bættum lífskjörum er í forgrunni,“ segir Valgerður.Haukur telur að LEB muni gegna enn mikilvægara hlutverki í framtíðinni en í dag. „Margir telja að fjórða iðnbyltingin sé fram undan, og víst er að hún mun ekki fara fram hjá garði aldraða, því verða þeir að búa sig undir hana eins og aðrir. Væntanlega mun hún framkalla hækkun meðalaldurs og meiri frítíma. Þar mun velferðartækni í ýmsum myndum halda innreið sína með sífellt meiri kröfu um tölvulæsi, þar verður verk að vinna fyrir LEB, því í dag er einungis helmingur eldri borgara sem hefur þá tölvufærni sem er nauðsynleg í samfélaginu á næstunni,“ segir Haukur.„Ég vil sjá að LEB fylgist með nýjungum  erlendis varðandi  málefni eldri borgara. Hvernig menn geta með sem bestum hætti komið búsetumálum og þjónustu  þannig fyrir að einangrun eldra fólks sem býr eitt, leysist á sem einfaldasta hátt.   Það skiptir máli hvernig við ætlum að búa eftir því sem aldurinn færist yfir og heilsa versnar.  Við gætum þurft að breyta um búsetu oftar en nú er stefna hjá stjórnvöldum.  Stefna stjórnvalda eru ekki óbreytanleg og þetta þarf að vera í stöðugri skoðun,“ segir Gyða.Þessi grein birtist fyrst í LEB blaðinu í apríl 2019

Previous
Previous

Jólakveðja LEB og jólahugvekja formanns

Next
Next

LEB fær styrk til að fyrirbyggja einmanaleika og eingrun aldraðra