Stefna um heilbrigðisþjónustu við aldraða umfjöllunarefni heilbrigðisþings 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur falið Halldóri S. Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrar, að vinna drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030. Stefnumótun á þessu sviði verður umfjöllunarefni heilbrigðisþings ársins 2021 sem heilbrigðisráðherra efnir til þann 20. ágúst næstkomandi.Samkvæmt samningi heilbrigðisráðuneytisins við Halldór um verkefnið skal hann í vinnu sinni horfa til heildarskipulags þjónustu við aldraðra, samþættingar milli heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu og þverfaglegs samstarfs á milli þessara þjónustustiga. Einnig skal taka mið af nýjum áskorunum og viðfangsefnum til framtíðar á þessu sviði og fjalla um mögulegar breytingar á framkvæmd þjónustunnar og skipulagi hennar með hliðsjón af nýsköpun og þróun hérlendis og hjá nágrannaþjóðun.Áhersla er lögð á að við stefnumótunarvinnuna verði haft samráð við notendur öldrunarþjónustu og aðstandendur þeirra um allt land og einnig við þá aðila sem helst koma að þjónustu við aldraða, hvort heldur hjá ríki, sveitarfélögum eða einkaaðilum. Hafa skal hliðsjón af heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og fyrirliggjandi stefnum og áætlunum um afmarkaða þætti sem varða þjónustu við aldraða, s.s. aðgerðaáætlun í málefnum einstaklinga með heilabilun, aðgerðaáætlun um endurhæfingu og aðgerðaáætlun um líknarþjónustu.
Nýhafinn áratugur tileinkaður heilbrigðri öldrun
Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa undanfarin ár unnið að greiningu og stefnumótun um heilbrigða öldrun. Þeirri vinnu lauk í desember síðastliðnum þegar sett var fram aðgerðaáætlun á þessu sviði og samþykkt að helga áratuginn 2021 til 2030 þessu viðfangsefni. Skilgreind eru fjögur megináherslusvið hvað þetta varðar, en það eru 1) aldursvæn samfélög, 2) barátta gegn aldursfordómum, 3) samhæfð þjónusta og umönnun og 4) endurhæfing, virkni, virðing, tækni og þátttaka við langtímaumönnun.
Málefni aldraðra til umfjöllunar á heilbrigðisþingi 2021
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að efna til heilbrigðisþings 20. ágúst næstkomandi og verða málefni aldraðra umfjöllunarefni þingsins. Gert er ráð fyrir að drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraðra verði kynnt og rædd á þinginu.
- Heilbrigðisstefna til ársins 2030
- Aðgerðaáætlun um þjónustu við einstaklinga með heilabilun til ársins 2025
- Aðgerðaáætlun um endurhæfingu til ársins 2025
- Aðgerðaáætlun um líknarþjónustu til ársins 2025