Þúsund blíðir Korpúlfar í Borgum
Gleðin býr í Borgum, segja þau í Korpúlfum, félagi eldri borgara í Grafarvogi. Og svei mér ef er ekki bara talsvert til í því. Í það minnsta er áberandi létt yfir liðinu í félags- og menningarstöðinni Borgum og alltaf eitthvað korpúlfskt um að vera þar eða annars staðar í hverfinu.Korpúlfar fögnuðu tvítugsafmæli í apríl 2018. Skráðir liðsmenn eru tæplega eitt þúsund, hvorki meira né minna! Félagið heldur blómlegri starfsemi sinni gangandi að langmestu leyti í sjálfboðavinnu.Í Korpúlfum er hefðbundið skipulag með stjórn og nefndir en engin félagsgjöld eru innheimt. Hins vegar var stofnaður sérstakur styrktarsjóður félagsins fyrir nokkrum árum og þar er tekið við frjálsum framlögum. Korpúlfar fjármagna starfsemi sína auk þess með því að gefa út og selja bækur, gjafakort, fána, merki, boli og fleira í þeim dúr.Ýmissa grasa kennir þegar litið er á dagskrá félagsins í vetur. Þar má nefna námskeið i listsköpun og tölvunotkun, skák, félagsvist, bridds, Boccia, keilu, leikfimi, pútt, sundleikfimi, hópa um bókmenntir, tónlist og kvikmyndir, hugleiðslu og jóga, gönguferðir, dans, prjónaskap og margt fleira. Þá ber að nefna að heilsuefling í víðasta skilningi er jafnan ofarlega á baugi.Birna Róbertsdóttir er verkefna- og rekstrarstjóri í Borgum og Korpúlfsfélögum innan handar í starfseminni. Hún segir að Korpúlfar hafi orðið til á sínum tíma í Miðgarði, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness. Miðgarður var tilraunaverkefni sem sannaði rækilega tilverurétt sinn, festi sig í sessi og varð fyrirmynd þjónustustarfsemi í hverfamiðstöðvum annars staðar í höfuðborginni.„Í Miðgarði hafa starfað frá upphafi fjölbreyttir faghópar og fyrsti framkvæmdastjórinn var Regína Ásvaldsdóttir, núverandi sviðsstjóri velferðasviðs borgarinnar og þar áður bæjarstjóri á Akranesi. Hún var þá nýkominn úr framhaldsnámi í félagsráðgjöf í Noregi með nýja strauma um íbúalýðræði sem var útfært hér með góðum árangri, meðal annars gagnvart eldri borgurum.Send voru út bréf til allra íbúa Grafarvogs 67 ára og eldri og þeir boðaðir til stofnfundar félags. Þangað mættu 23 en þegar á reyndi voru aðeins 10 sem tóku þátt í starfinu. Þessi hópur er í dag gjarnan nefndur stofnfélagar Korpúlfa og margir þeirra nú ennþá starfandi af krafti, liðlega tveimur áratugum síðar.Hugmyndafræðin um sjálfsprottið félagsstarf Korpúlfa hefur síðan vaxið og blómstrað með hverju ári. Þeir með stjórn, fjórar nefndir, eigin lög og einfaldar reglur sem byggjast á gleði og virkni. Lögð er áhersla á að sem flestir skipti verkum í starfinu. Margir eru afar virkir og hugmyndavinna þeirra fær að njóta sín.Í upphafi voru Korpúlfar með aðsetur í Miðgarði en fengu síðar inni á Korpúlfsstöðum og þar er nú tréskurðardeild félagsins.Félags- og menningarmiðstöðin Borgir var tekin formlega tekin í gagnið 17. maí 2014 og þar blómstra nú Korpúlfar. Aðsóknin er mikil, aðallega úr Grafarvogshverfi en víðar að líka Hingað kemur reyndar fólk á öllum aldri: leikskólabörn, fermingabörn, fólk frá sambýlum í hverfinu og fleiri. Auk þess eru salirnir mikið lánaðir og leigðir út fyrir margvíslega starfssemi.Í Borgum er fjölskyldustemning alla daga og þægilegt andrúmsloft sem fólk nýtur og sækist eftir. Við viljum rjúfa félagslega einangrun fólks með dýrmætri samveru í virðingu og vinsemd. Það er veruleikinn hjá okkur, ekki bara orðin tóm. Hér er samfélag fyrir alla, gott og gaman að vera til.“ [FinalTilesGallery id='1']